Árið var í einu orði sagt stórkostlegt og brallaði ég margt mér til gamans t.d.
- Byrjaði árið á því að skella mér á ansi skemmtilega HÆTTU! tónleika í Laugardagshöllinni.
- Síðast í janúar varð ég 23 ára og voru stelpurnar búnar að plana yndislegan afmælisdag fyrir mig sem innihélt m.a. ferð til Jóa míns að borða, nudd og ferð í heita pottinn í Baðhúsinu, út að borða á Fridays, körfuboltaleik og ferð í Melaísbúðina. Unaðslegur dagur.
- Í lok febrúar fór ég svo til kóngsins Köben ásamt Margréti og Thelmu. Aðalmarkmið ferðarinnar var að sjálfsögðu að hitta allt okkar ástfólk sem þar býr og gerðum við það svo sannarlega. Vorum hjá Jóhönnu okkar en hittum einnig, Huldu, Auði, Evu, Baldur, Önnu Margréti, Sibbu og Dóa. Ferðin var algjörlega æðisleg og vona ég sannarlega að við gerum svona ferðir að árlegum viðburði hjá okkur.
- í byrjun mars var árshátíð Kennó og skemmti ég mér hreint konunglega.
- Nú í byrjun maí kláraði ég fyrsta árið í Þroskaþjálfanum með ágætis brag.
- Við tók ansi mikil vinna allt sumarið í Reykjadal, þeim skemmtilega stað.
- Gaman að segja frá því að í lok maí byrjaði Skjár einn að sýna þær góðu seríur Beverly Hills og Melrose Place. Gott ef líf mitt batnaði ekki um ein 25 % við það.
- Í byrjun júní lögðum við Thelma, Telma og Margrét upp í mikla óvissuferð. Ég og Thelma plönuðum hana reyndar þannig að við vissum hvert ferðinni var heitið. Byrjuðum á því að labba langleiðina uppað Glym, brunuðum því næst í kaffi á Hvanneyri og svo uppí sumarbústaðinn okkar. Eyddum mestum hluta laugardagsins uppí bústað, fórum í gönguferð inn gilið sem þar er, fórum svo í sund í Húsafelli og litum á Hraunfossa og Barnafoss á leiðinni til baka. Fórum svo í Borgarnes þar sem Oddný og Stebbi elduðu fyrir okkur dýrindis mat og skelltum okkur svo á lífið í nesinu. Sunnudagurinn var ekki sá besti sem ég hef upplifað og ætla ég því ekki að tíunda hann hér. Ferðin var þó í heildina frábær.
- Þótt ég hafi eytt sumrinu að mestu í vinnu þá gaf ég mér tíma til að djamma eilítið í vaktafríunum og þá yfirleitt með vinnufélögunum hvort sem var um helgi eða á virkum degi. Skemmtilegasta djammið var líklega Ratleikurinn hinn mikli. Algjörlega frábærir vinnufélagar sem ég hafði og verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna þeirra hvar svo sem ég verð að vinna næsta sumar.
- Eyddi sumrinu líka í almennum huggulegheitum sem er yndislegt.
- Í byrjun júlí kom Halldóra í bæinn og Jóhanna til landsins og fórum við stelpurnar allar saman út að borða og út á lífið. Langt síðan við höfum verið svo margar saman eða 6 af 7.
- Útilegan TYPPI 2006 var haldin að Þingvöllum um miðjan júlí. Ég, Jóhanna, Thelma, Anna og Sigga fórum saman á laugardegi og vorum til sunnudags. Þessum sólarhring var eytt í drykkju, át, Kubb var spilað, legið í sólbaði og brunnið, rölt um Almannagjá og farið svo í sund í Kópavogi. Vona innilega að svona útilega verði að árlegum viðburði hjá okkur stelpunum og væri ekki verra ef fleiri skemmtilegir bættust í hópinn.
- Verslunarmannahelginni eyddi ég heima í sveitinni með systur minni og fjölskyldu hennar. Var að nýta allan þann tíma sem ég hafði til að vera með þeim áður en þau fluttu til Danaveldis. En flutningur þeirra er líklega leiðilegasti atburðurinn sem gerðist á árinu þó honum fylgi fleiri tækifæri til að heimsækja veldi Dana og þau að sjálfsögðu. Fleiri flutningar áttu sér stað en um miðjan ágúst sleit ég sambúð minni við Kristjönu og Ingibjörgu og varð míns eigins herra. Ég fór nefnilega að leigja á stúdentagörðum Kennó og uni hag mínum þar vel.
- Í lok ágúst gerðist líklega skemmtilegasti atburður ársins en þá fór ég til Búlgaríu í sólar og unaðsferð ásamt Margréti, Önnu Friðriku, Siggu og Höbbu. Jóhanna heiðraði okkur með nærveru sinni í eina viku og leynigestirnir Telma og Thelma mættu svo á svæðið seinni vikuna okkar. Það væri of langt ef ég ætlaði að lýsa ferðinni nákvæmlega, hef líka gert það áður en hún var yndisleg, unaðsleg, frábær, skemmtileg svo ég segi eitthvað og mun ég geyma hana í hjartanu svo lengi sem ég lifi. Mikið væri ég til í að fara aðra svona ferð fljótlega.
- Mjög fljótlega eftir heimkomu tók við mín harðasta megrun sem ég hef nokkru sinni farið í og var hún meira að segja óviljandi eða svona næstum. Fór nefnilega í hina langþráðu kjálkaskurðaðgerð og var í kjölfarið víruð saman í fimm vikur svo ekki gat ég borðað neitt svakalega mikið. Aðgerðin skilaði sínu á allan hátt svo nú sér loksins fyrir endann á mínum blessuðu tannréttingum.
- Nú í lok október var komið að minni annarri Danmerkurferð þetta árið en í þetta sinn var förinni heitið til Árósa til að heimsækja ástkæra eldri systur mína, mann hennar og dætur. Fór ásamt stórfjölskyldu minni og átti yndislega langa helgi í Árósum og nágrenni hennar. Vona að ég komist út til þeirra sem fyrst.
- Í byrjun nóv hóf ég störf á leikskóla í borginni og vinn þar 2 daga í viku og líkar vel. Veit reyndar ekki alveg hvernig fer með vinnu mína eftir áramót þar sem ég verð með afskaplega óvinnuvæna stundarskrá.
- Í nóvember flutti ég reyndar aftur en aðeins innan internetsins, fluttist á þessa ágætu síðu og vona að ég verði hér sem lengst.
- Með því að ljúka prófunum í desember var ég hálfnuð með nám mitt í Kennó, ekki amalegt það. Eftir ekki nema 1 og 1/2 ár verð ég háttvirtur þroskaþjálfi.
- Eyddi svo jólum í faðmi fjölskyldunnar á Hvanneyri og ætla meira að segja að eyða áramótunum hér líka. Nenni hreinlega ekki að fara í nesið þar sem það er ekkert markvert að gerast í þeim guðsvolaða bæ. Sé því fram á róleg en yndisleg áramót þetta árið.
Ég ætla að ljúka þessum annál mínum hér með og óska öllum gleðilegs nýs árs og vona að árið hafi verið eins yndislegt hjá ykkur og mér. Hittumst hress og kát á árinu 2007.

3 ummæli:
Skemmtilegt að fá svona upprifjun, hellingur sem ég var búin að gleyma:) 2006 hefur verið þér gott ár og ég vona að 2007 verði enn skemmtilegra! Sjáumst á nýju ári, Margrét
Vá...greinilega viðburðaríkt og alveg hreint frábært ár sem nú er á enda...gaman að fá að vera partur af svona mörgu *)
Æj en gaman:) takk fyrir allar okkar unaðslegu stundir og vonandi að við getum haldið áfram að skapa gleðilegar minningar.
Skrifa ummæli