Finn mig knúna til að segja aðeins frá síðustu helgi.
Eftir á að hyggja þá var helgin yndisleg í alla staða get hinsvegar ekki sagt að hljóðið í mér hafi verið mjög gott í byrjun helgarinnar eða um hálf 9 leytið á föstudagskvöldið. ÚFF.
Þá töldum við stelpurnar okkur vera komnar á áfangastað. Í Þjórsárdal vorum við allavega komnar en ekki gátum við fundið bústaðinn þrátt fyrir að hafa fylgt leiðbeiningum eins vel og kostur var. Þær leiddu okkur að lítilli brekku sem var full af snjó og þar sem við vorum á Yaris og Polo vorum við ekki alveg á buxunum að æða áfram.
Við vildum ekki trúa því að leiðin að bústaðnum okkar væri ófær svo við fórum á næsta bæ og spurðum bóndann hvort við höfðum virkilega verið á réttri leið. Júbb því miður var það svo. Hann var svo elskulegur að lána okkur snjódisk svo við ættum auðveldara með að ferja dótið okkar því að hans sögn var um 1km gangur að bústaðnum.
Jibbý! Get ekki sagt að við höfum verið mjög ánægðar með þessar fréttir en þar sem við vorum komnar þetta langt þá gátum við ekki farið að snúa við. Svo við lögðum af stað með allt það drasl sem við töldum nauðsynlegt þar á meðal sirka 10 poka af mat.
Og guð minn góður hvað ég blótaði mikið á leiðinni. Hélt ég væri að láta lífið hvað eftir annað en hélt áfram á þrjóskunni einni saman, ágætt að hún kom að notum svona einu sinni.
Ekki nóg með að leiðin hafi verið um 1 km heldur var hún lengi vel uppí móti og það var snjór eða bleyta alla leiðina. Yndislegt.
Það sem gerði ferðina samt bærilega var að himininn var stjörnubjartur og norðurljósin á fullu. Ágætt að hafa eitthvað til að lýsa okkur leiðina því við höfðum ekki hugmynd um það hvert við vorum að fara, fylgdum bara einhverjum sporum sem voru í snjónum.
Get ekki líst gleðinni sem bærðist innra með mér þegar ég sá loksins þak, það var reyndar ekki bústaðurinn, hann var númer 2. Fagnaðarópin sem glumdu um allan dal þegar ég komst svo inn í rétta bústaðinn voru heldur ekki lítið.
Afgangurinn af helginni leið svo í hreinum unaði. Hún einkenndist af ágætis svefni, mjög svo notalegum pottaferðum, fáránlega miklu áti (enda ætluðum við að bera sem minnst til baka), smá lærdómi og svo pleasure time með stelpunum.
Kom alveg endurnærð til baka.
Væri til í að gera þetta mun oftar, reyndar fyrir utan fjandans labbið.
Anna, Sigga, Thelma og Kristín Laufey, takk fyrir yndislega helgi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli