föstudagur, nóvember 23, 2007

Jólaandinn

Hef haft einhverja svakalega þörf undanfarna daga til þess að komast í jólaskap og fá jólaandann yfir mig. Ég gæti vissulega gert það á auðveldan hátt með því að skreyta híbýli mín og hlusta á jólalög en þar sem það er alveg bannað í huga mínum fyrir 1.des þá þurfti ég að finna aðrar leiðir.

Ég ákvað því að fá jólaskapið í gegnum magann og nasirnar, svona til að byrja með.

Fór því og keypti mér hitt og þetta, það er nefnilega til ótrúlega mikið af vörutegundum sem tengjast jólunum.

Fyrir það fyrsta keypti ég Jólahrísmjólk, hún er góð. Borða aldrei kaldan hrísgrjónagraut nema á jólunum og því er þetta góð leið til að minna á þau.

Svo var það Grýlukanilskaffið sem ég get ekki hætt að dásama og hef beðið óþreyjufull eftir síðan síðustu jól. Keypti poka af því og lyktin og bragðið af því er unaðsleg sem endranær.

Jólaöl tilheyrir náttúrulega jólanum. Þegar ég var yngri fannst mér jólaöl ekkert sérstakt en eftir því sem ég hef elst og þroskast hef ég þróað með mér smekk fyrir því. Það er með það eins og annað að ég fæ mér ekki malt og appelsín nema á jólunum og því drakk ég í mig jólaandann strax við fyrsta sopann.



Þar sem ég er farin að drekka æ meira af tei þá varð ég bara að prófa að kaupa Jólate. Í þetta sinn var Aðventute fyrir valinu og var ég ekki svikin af því. Yndisleg jólalykt- og bragð af því. Þegar ég hef klárað það hef ég hugsað mér að kaupa Frostrósate svona ykkur að segja.



Kerti með jólailm sem og önnur kerti hafa einnig komið sterkt inn hjá mér þessa dagana. Ekki veitir af að reyna að lýsa upp heima hjá sér þar sem mér finnst alltaf hálf dimmt.



Síðast en ekki síst er það jólabjórinn. Þegar hann er komin í ríkið þá veit maður að jólin eru að koma.

Með hjálp þessara vara er ég komin í aðeins meiri jólagír. Eftir næstu helgi verð ég svo vonandi búin með öll verkefni nema eitt og þá get ég farið að versla jólagjafirnar af fullum krafti.

Í dag eru ekki nema 31 dagur til jóla. Það þýðir það að eftir 36 daga fer ég til Danaveldis en þar ætlar stórfjölskyldan að fagna nýju ári. Það verður eflaust skrýtin en skemmtileg tilbreyting.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sæl
Bara svona þér að segja þá braut ég lögin í dag en þó ekki viljandi. Við hittumst sem sagt nokkarar og gerðum aðventukransa og dagatalsskreytingu (rosa flott hjá mér) og þar voru spiluð jólalög. En sjálf er ég ekki einu sinni búin að finna jóla CD-ana. En laumaðist þó líka til að hnoða í tvær smákökusortir í nýju og flottu hrærivélinni minni. Svo jólin fara alveg að láta sjá sig í Danaveldi.
Kveðja þin systir

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo mikill fagmaður Sæja. Jóla þetta og jóla hitt og maður er alveg kominn í gírinn:)

Nafnlaus sagði...

Særún jólabarn. Rosalega langar mig í jólabjór núna... skrambans jólablogg.